143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta snúist ekki um mörk framkvæmdar- og löggjafarvalds þegar um er að ræða formenn þeirra flokka sem eiga sæti á þingi. Allir þessir formenn eru hluti af löggjafarvaldinu þannig að ég lít ekki á þetta sem nein afskipti þar á milli. Það liggur fyrir að virðulegur forseti stýrir þingstörfum og hann gerir það í samráði við alla þessa formenn og þingflokksformenn. Það hefur ekkert að gera með mörk framkvæmdar- og löggjafarvalds.

Ég vil bara koma hér upp á nýjan leik til að taka undir með þeim sem hafa bent á að ef hefja á fundi um þau umdeildu mál sem eru á dagskrá væri kannski eðlilegra að taka önnur mál og setja þau ofar á dagskrána.

Það væri líka mjög gott að vita hvenær nákvæmlega á að boða til þessa fundar. Ég man að minnsta kosti ekki eftir því þegar ég vann á öðrum vinnustöðum að maður væri boðaður á fundi með þeim hætti að einhvern tímann yrði fundur, kannski einhvern tímann einhvers staðar. Það væri mjög gott að fá þetta á hreint og dagskrá þingsins tæki mið af því hvernig þeim fundarhöldum verður háttað.