143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni orð sem hæstv. ráðherra lét falla áðan og hneykslaðist heil ósköp yfir því að stjórnarandstöðuþingmenn kæmu upp og hefðu áhyggjur af málum fundarins og því samkomulagi sem allir héldu að leitað yrði eftir. Málið er í höndum forsætisráðherra eins og hér hefur verið rakið sem hefur ekki séð sér fært að ræða við formenn annarra stjórnmálaflokka um þessi mál. Mér finnst óþolandi að ráðherra leyfi sér að halda því fram þegar þingmenn lýsa yfir áhyggjum eða því að þeir séu ekki sammála þessu verklagi að það sé ómálefnalegt. Mér finnst það tilraun til þöggunar að fólk megi ekki hafa sína skoðun. Þetta hefur áður komið fram frá þessari ríkisstjórn og ráðherrum hennar, mér finnst þeim það ekki sæmandi (Forseti hringir.) og tel að hæstv. ráðherra ætti að biðjast afsökunar á þeim orðum sínum að halda því fram að við séum hér með ómálefnalega umræðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)