143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að hefja hér þingfundi að nýju eftir tíu daga hlé. Við fórum inn í það hlé, nefndadaga, með þann sameiginlega skilning að hér yrði fundað um þá stöðu sem uppi er í þinginu eftir að ríkisstjórnin lagði fram svikatillögu sína.

Framkoma forsætisráðherra sem hefur ekki boðað til tímasetts fundar enn þá — jú, það liggur í loftinu að það eigi þó að funda — er ögrun við minni hlutann í þinginu. En þetta er ekki bara ögrun við okkur, fólkið í þessum sal, heldur við þær þúsundir sem hafa mótmælt æ ofan í æ á Austurvelli og þá tæplega 50 þús. kjósendur sem hafa undirritað kröfu þess efnis að ríkisstjórnarflokkarnir standi við kosningaloforð sín. Ég tel eðlilegt að hér verði gert hlé á fundi og forsætisráðherra gert kleift að standa við þau orð sín (Forseti hringir.) að funda með minni hlutanum.