143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þúsundir manna komu fyrir utan Alþingi og mótmæltu dögum saman. Annað eins hefur ekki sést síðan í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu. 48.793 hafa skrifað undir, 20,2% kosningarbærra manna á Íslandi, og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það sem ég er að reyna að segja hérna er að þetta er stórmál. Þetta er ekki enn einn dagskrárliðurinn og það er fullkomlega sanngjarnt með hliðsjón af því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hagað sér síðustu ellefu dagana, og lengur, að sá fundur sem hefur verið boðaður sé tímasettur og að ekki sé þingfundur á sama tíma. Það virkar sem lágmarkskurteisi með hliðsjón af því að hér stendur maður og getur einhvern veginn gefið sér að öll loforð muni bregðast. Maður getur gefið sér að ekkert verði af fundinum vegna þess að — guð má vita hvers vegna, nema auðvitað að það sé sannað með óvefengjanlegum hætti að þessi fundur verði og þá hvenær og að við getum haft hlé á þingfundi á sama tíma.