143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Einn liður í því sem fram kom hjá hæstv. forseta umræddan 27. febrúar sl. var sá að hefja umræðu um tillögu hæstv. utanríkisráðherra, en jafnframt kom fram hjá honum að þær tvær tillögur aðrar sem lágu fyrir, annars vegar frá þingmönnum Vinstri grænna og hins vegar frá þingflokki Pírata ásamt fleirum, yrðu afgreiddar eftir atvikum umræðulaust til nefndar jafnframt tillögu hæstv. utanríkisráðherra, sagði hæstv. forseti.

Það segir sig sjálft að það hvaða samkomulag verður um framhald málsins hefur áhrif á það hvernig menn ræða þessa tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Skilningur okkar hefur verið sá að allar tillögurnar þrjár væru í raun undir en hinar tvær gengju þá umræðulaust til nefndar.

Nú vitum við ekki hvernig þessi umræða á að fara fram, hæstv. forseti. Það er þess vegna bersýnilegt af orðum hæstv. forseta sjálfs að dæma að ekki er hægt að (Forseti hringir.) hefja þessa umræðu fyrr en botn hefur fengist í það hvernig umræðan á að fara fram.