143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst grátlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli forðast þingsalinn en sitja þess í stað úti í matsal og háma þar í sig kökur með rjóma. Ég er þeirrar skoðunar að það sé lágmark að hæstv. forsætisráðherra sýni sama hugrekki og varaformaður Framsóknarflokksins og sitji undir þessum ræðum til að skilja tilfinningar þingmanna. Þingmenn telja að loforð hafi verið brotið. Það var algjörlega ljóst þegar við fórum til nefndaviku að hana átti að nota til að ræða einhvers konar hugsanlega málsmeðferð millum forustumanna flokkanna. Ég hef í utanríkismálanefnd lagt á það ríka áherslu að mér fannst góðar undirtektir við að það yrði á þeim vettvangi sem menn ræddu utanumhald um þetta mál, með hvaða hætti ætti að fara með það í nefndinni og hvernig ætti að ræða það í þingsal.

Þegar hæstv. forsætisráðherra kýs frekar að borða súkkulaðiköku með rjóma en sitja í þingsalnum undir þessum ræðum tek ég það til marks um mjög einbeittan brotavilja í þessu máli.