143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

ummæli forsætisráðherra í kosningabaráttu 2009.

[16:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður vísar til yfirlýsingar sem ég gaf á Laugarvatni eftir kosningar — vel að merkja, eftir kosningar — þá ítrekaði ég í beinu framhaldi að aðstæður þyrftu að vera réttar til að hægt væri að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Ég geri enn ráð fyrir því að til þess komi einhvern tíma að menn muni greiða atkvæði um það hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið, en það er ekki hægt að ætlast til þess að ríkisstjórn sem er andvíg aðild að sambandinu sé í viðræðum við sambandið. Það getur meira að segja Evrópusambandið sjálft útskýrt fyrir hv. þingmanni sem er reyndar að finna upp eitthvað alveg nýtt, þ.e. að samið verði um aðild að Evrópusambandinu með fyrirvara sem feli það í sér að sá sem skrifi undir sé andvígur samningnum sem hann er að skrifa undir. Ég er ekki viss um að Evrópusambandið geti fallist á þessa túlkun hv. þingmanns enda gengur hún gegn öllum þeim upplýsingum sem hægt er að verða sér úti um á heimasíðu sambandsins og annars staðar um það hvernig aðildarviðræður ganga fyrir sig.