143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

launakjör og yfirvofandi verkfall framhaldsskólakennara.

[16:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra að ræða sérstaklega inntak kjarasamninga, en einhvern veginn tókst nú hæstv. ráðherra samt að komast algjörlega hjá því að svara spurningunum sem ég setti fram, því að þó að kjarasamningar séu ekki viðfangsefnið hér á Alþingi þá er menntapólitík viðfangsefni. Lagabreytingar á framhaldsskólanum eru viðfangsefni og þess vegna skiptir mjög miklu máli að við fáum hér skýr svör frá hæstv. ráðherra.

Ég spurði hann hvort hann væri sammála eða ósammála því að kennarar hefðu dregist aftur úr í kjörum í samanburði við aðrar sambærilegar stéttir, hvort hann sæi fyrir sér að stytting framhaldsskólans sparaði fjármuni til þess að hægt væri að hækka laun kennara. Þetta er ekki bara spurning um kjarasamninga heldur er þetta stórmenntapóltískt mál, því að þetta þýðir brotthvarf frá þeim lögum sem samflokksmaður hæstv. ráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagði fram á sínum tíma sem ráðherra. Ég spurði líka mjög einfaldrar spurningar, hvort fulltrúar Kennarasambandsins hefðu tekið þátt í vinnslu hvítbókarinnar. Og ég varð heldur ekki vör við að ég fengi svör frá hæstv. ráðherra um það.