143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

launakjör og yfirvofandi verkfall framhaldsskólakennara.

[16:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi sagt það nokkuð skýrt í mínu fyrra svari að hvítbókin er skrifuð af starfsmönnum í ráðuneytinu. Auðvitað er víða leitað fanga og við höfum kallað til marga til ráðgjafar um það mál. En fyrst og síðast er þetta hvítbók þar sem ég legg fram ákveðinn umræðugrundvöll og má ekki rugla því saman við einhverja ákvörðunartöku eða framkvæmdaáætlun sem kallar síðan á að það sé með formlegum hætti kallað til samráðs við ýmsa aðila, m.a. kennara og fleiri. Ég hef nú þegar kynnt þetta reyndar á fundi, eins og ég gat um hér á þingfundi, með skólameisturum og rektorum framhaldsskólanna, gerði það fyrir nokkru síðan o.s.frv.

Hvað varðar aðra þá þætti sem hv. þingmaður kallar eftir þá hafa kennarar lagt fram röksemdafærslur sínar um þróun launa. Staðan er nákvæmlega sú að á almennum vinnumarkaði er búið að ganga frá kjarasamningum að stórum hluta. Menn vita hvað gerðist þar og þar með myndast ákveðin staða í þessum viðræðum. (Forseti hringir.) Ég hef bent á að til eru leiðir til að (Forseti hringir.) gera breytingar á skólastarfinu og gera það nútímalegra (Forseti hringir.) og um leið að skapa svigrúm fyrir aukna kauphækkun fyrir kennara, (Forseti hringir.) sem veitir ekki af, virðulegi forseti, það er mikil þörf á því.