143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

aðildarviðræður við ESB.

[16:19]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í skilgreiningu hans á Framsóknarflokknum sem fram kom í viðtali í Frjálsri verslun í liðinni viku. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ég hef skilgreint flokkinn þegar ég hef verið spurður að þessu sem flokk róttækrar rökhyggju.“

Spurning mín er eftirfarandi: Hvernig samræmist það róttækri rökhyggju að loka á og slíta viðræðum við Evrópusambandið á þessari stundu? Væri ekki mun róttækari rökhyggja að fá allar lausnir á borðið og treysta þjóðinni til að vega þær og meta eftir upplýsta umræðu og um kosti og galla? Sé það ferðalag pólitískt ómögulegt á þessari stundu væri þá ekki mun rökréttara að bíða með slit þar til sá pólitíski möguleiki opnast, úr því sem komið? Sú ákvörðun varðar auðvitað fleiri en þá 38 þingmenn sem tilheyra stjórnarflokkunum.

Mig langar því að biðja hæstv. forsætisráðherra að skoða skilgreininguna á þessum orðum gaumgæfilega og leiða mig þá í betri sannleika um þessi orð og hugtök ef hann getur.