143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

aðildarviðræður við ESB.

[16:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Spurt er hvert við séum að fara. Þessi ríkisstjórn er að fara áfram með íslenskt samfélag eins og við höfum séð á svo fjölmargan hátt frá því að hún tók við. Hagvöxtur á Íslandi er nú með því mesta í Evrópu. Þvert á spár hefur hann aukist gríðarlega á síðustu missirum vegna þess að menn eru að öðlast trú á framtíðina. Það er verið að fjarlægja hindranir sem hafa verið í vegi og innleiða hvata í staðinn.

Atvinnuleysi fer minnkandi og verður með því allra lægsta í Evrópu ef fram heldur sem horfir og er raunar kannski orðið það nú þegar, á meðan Evrópusambandslöndin glíma flest hver við gríðarlegt atvinnuleysi, jafnvel yfir helmingsatvinnuleysi hjá ungu fólki. Fjárfesting á Íslandi er að aukast. Við sjáum fjölmörg uppbyggileg góð atvinnuverkefni vera að fara af stað.

Því miður hef ég ekki nema eina mínútu til að telja upp, annars hefði ég getað nýtt miklu fleiri mínútur vegna þess að þróun mála á Íslandi síðustu missiri hefur öll (Forseti hringir.) verið til betri vegar og á þeirri leið ætlum við að halda áfram.