143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir taka fram að ég tel að hæstv. forseti hafi lagt mikið á sig til þess að reyna að halda þokkalega utan um störf þingsins og þinghaldið og alls ekkert út á það að setja.

En ég varpaði því fram hér áðan í umræðunni um fundarstjórn forseta að það skipti máli hvernig farið væri í þá umræðu sem núna er næst á dagskránni. Er það út frá því að verið sé að ræða þessar þrjár tillögur í meginatriðum saman vegna þess að þær tvær sem á eftir koma frá þingflokki VG og frá Pírötum o.fl. eigi að fara nánast umræðulaust til nefndar? Eða er það út frá því að hver um sig verði tekin fyrir og ætlaður sá ræðutími og umræðutími sem þingsköpin gera ráð fyrir?

Þetta hlýtur að hafa áhrif á það hvernig menn fara í umræðuna um það mál sem kemur fyrst á dagskrána, þ.e. þriðja dagskrármálið, hvernig menn nálgast það og hvernig menn tala um það. Mér finnst því mikilvægt að hæstv. forseti reyni þá að skýra það í öllu falli.