143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Skýr vilji forseta liggur fyrir. Liðurinn um fundarstjórn forseta er vettvangur fyrir okkur þingmenn til að koma á framfæri skýrum vilja okkar í málum sem varða dagskrá þingsins og stjórn þinghaldsins.

Ég vil taka undir með öðrum sem hér hafa talað. Ég er ákaflega ánægður með þá viðleitni sem forseti Alþingis hefur sýnt til að reyna að leiða saman ólík sjónarmið í því erfiða deilumáli sem aðildarviðræðurnar við ESB eru. Mér er núna orðið það nokkuð ljóst að fundurinn á eftir er að frumkvæði virðulegs forseta Alþingis. Ég fagna því.

Nú ætla ég í fyllstu einlægni að lýsa vilja mínum vegna þess að ég mundi segja að það væri betur til þess fallið til að nýta tímann vel í þingstörfum að við mundum taka til umfjöllunar önnur mál eins og t.d. gjaldskrárlækkanir og fleiri á meðan við, formenn flokkanna á Alþingi, erum að reyna (Forseti hringir.) að leysa þetta erfiða deilumál. Mér finnst marklaust að tala um málið í þingsal á meðan það er í öðru ferli.