143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert út á viðleitni hæstv. forseta að setja og hans ötulu vinnu við að koma á þessum blessaða fundi. En miðað við reynsluna velti ég svolítið fyrir mér hvað í ósköpunum hv. þingmenn eiga að gera í stöðu sem þessari þegar hæstv. forsætisráðherra kannast ekki einu sinni við, að því er virðist, neitt samkomulag. Ég get ekki látið eins og ég sé mjög hissa vegna þess að þetta er eiginlega meira munstur en undantekning. Maður veit því ekki hvað stendur. Svo er fundur á eftir. Gott og vel. Hvað á að semja um á þeim fundi? Varla ætlum við að semja um að ræða þessi mál saman, svo mikið er víst. Það er ekki hægt að gera það eins og hefði verið hægt ef fundurinn hefði verið haldinn á þeim tíma sem samkomulagið tilgreindi.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að sem þingmaður á ég svolítið bágt með að átta mig á því hver hugsunin er nákvæmlega á bak við þetta vinnuferli hjá hæstv. forsætisráðherra. Það virðist ekki hvarfla að honum í eina sekúndu að nokkuð gerist á fundinum sem gæti breytt þessari umræðu. Hvað segir það okkur, virðulegi forseti? Það segir okkur að þetta sé tímasóun.