143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er ósammála ákvörðun forseta um að hefja þessa umræðu áður en fundurinn fer fram. Þetta mál er risavaxið, eitt stærsta deilumál síðari tíma í íslenskri pólitík og menn hafa í fyrri umræðu tvær ræður til að fara yfir efnisatriðin í málinu, tíu mínútur og fimm mínútur. Það er óásættanlegt að þingmenn þurfi að nota fyrri ræðu sína og eyða tíu mínútum í þá umræðu áður en nokkur niðurstaða af fundi formanna stjórnmálaflokkanna liggur fyrir. Mér finnst það fullkomlega óásættanlegt að þingmenn þurfi að sæta því að vera búnir með fyrri ræðu sína í málinu áður en niðurstaða liggur fyrir.

Þannig að ég mótmæli þessari ákvörðun forseta og vil fara fram á það, ég tel það ekki mikla ofrausn, að fresta fundi í hálftíma þannig að menn geti átt báðar sínar ræður eftir þegar niðurstaða liggur fyrir af fundi formanna.