143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá virðulegum forseta, hann reynir hvað hann getur til að við getum haldið vinnu okkar áfram eftir eðlilegum hætti. Það er hins vegar ekki við okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar að sakast, það eru formenn stjórnarflokkanna sem eiga að mæta á þennan fund og áttu að mæta á fund í síðustu viku til að ræða þessi mál. Það er við þá að sakast um þær kvartanir sem hér eru hafðar uppi.

Ég er ekki sammála niðurstöðu forseta um að það sé ekkert á móti því að hefja hina efnislegu umræðu. Það er það. Málsmetandi menn og hæstv. ráðherrar í öðrum stjórnarflokknum hafa sagt undanfarna daga að það sé ljóst að málsmeðferðin sem uppi er gangi ekki áfram. Það er verið að hafa okkur að hálfgerðu fífli, virðulegi forseti, að við séum í efnislegri umræðu um eitthvað sem við vitum ekki almennilega hvað er.