143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef mikinn skilning á því að það þykkni í hæstv. forseta út af stöðu mála, en ég held að sú þykkja ætti að snúa að formönnum stjórnarflokkanna. Það var gert samkomulag um hvernig ætti að fara með þessi mál. Það eru þrjú mál sem fjalla um sama atriðið, þ.e. um hvort halda eigi áfram eða slíta viðræðum við ESB.

Hæstv. forseti gerði ágætlega grein fyrir því að þriðja málið, þ.e. tillaga stjórnarinnar, yrði meginumræðan, síðan var ætlast til þess að umræða um næstu tvö mál yrði styttri og eftir atvikum jafnvel engin.

Hér hefur komið fram að við höfum tíu mínútur plús fimm mínútur til að fjalla um þetta mál. Mér finnst ekki til of mikils ætlast að hæstv. forseti upplýsi hvort ekki sé eðlilegt að setja fram á fundinum á eftir að menn ljúki ekki umræðunni um fyrsta málið heldur taki öll þrjú málin þannig að við fáum þrisvar sinnum tíu mínútur og þrisvar sinnum fimm mínútur hver þingmaður og tryggingu (Forseti hringir.) fyrir því að þriðja málið verði ekki sett inn í nefnd og hin tekin (Forseti hringir.) af dagskrá. Miðað við það sem hefur gengið hér á má alveg búast við því (Forseti hringir.) að það verði ekkert rætt og þá er málið komið í nefnd og úr okkar höndum hér vegna þess að hæstv. forseti ræður þá, eins og hingað til. Hann hefur svo sem stjórnað mjög vel og ætti að vera hægt að treysta honum, en því miður ekki öðrum (Forseti hringir.) sem eru að vinna með honum.