143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. forseti hafi lagt gjörva hönd að því að greiða fyrir þingstörfum með því að reyna að koma á fundum á milli forustumanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar. Ég hef lagt á það ríka áherslu í utanríkismálanefnd að ég tel mjög mikilvægt að menn nái utan um málið allt í heild sinni. Ég tel að það sé ekki nóg að forustumennirnir ræði um hvernig þessum tillögum á fram að vinda heldur líka hvernig við fjöllum um þær í hv. utanríkismálanefnd og með hvaða hætti skýrsla Hagfræðistofnunar verður afgreidd þaðan í tengslum við þær tillögur sem von bráðar koma þangað.

Ég vil hins vegar koma hér ekki síst til þess að leggja áherslu á það að núna þegar þingið er í uppnámi er engum bjóðandi að koma og halda hér ræðu, eins og hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Hún fær, eins og við hin, einungis tíu mínútna ræðutíma og síðan annan fimm mínútna og mér finnst ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á það þegar allt er í lausu lofti að halda ræður sínar við þær kringumstæður. Þess vegna fer ég fram á þetta við hæstv. forseta.