143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka forseta fyrir að hafa orðið við ósk um hlé á þingfundi meðan á formannafundi stendur. Hins vegar verður hæstv. forseti að sætta sig við að þegar drengirnir sem fara fyrir stjórnarflokkunum svíkja gerða samninga þá setur það allt þinghaldið úr skorðum og umræður hér verða allt aðrar en ella væri. Jafnvel þó að hægt væri að hafa skilning á þeirri afstöðu forseta á ýmsum tímum að vilja halda áfram efnislegri umfjöllun þá hafa mér verið borin þau boð að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki staddur í Alþingishúsinu. Þá tel ég að sú hugmynd að ræða áfram þetta dagskrármál sé sjálffallin, ekki af því að það skorti vilja hæstv. forseta Alþingis til þess að beita sér fyrir efnislegri umræðu um málið hér fram að þeim formannafundi sem fram fer heldur vegna þess að flytjandi málsins, hæstv. utanríkisráðherra sem flytur einhverja stærstu tillögu um framtíð Íslands á síðari missirum, (Forseti hringir.) hefur ekki látið sig í þinghúsinu. Það er bara eðlilegt við þær (Forseti hringir.) aðstæður að málið sé (Forseti hringir.) ekki tekið á dagskrá, (Forseti hringir.) enda flutningsmaðurinn ekki til staðar (Forseti hringir.) til að ræða við.