143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[16:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vegna þess að stemningin er nú farin að þyngjast nokkuð í þingsal vil ég segja það fullum fetum að ég lýsi fullri ábyrgð á hendur formanna stjórnarflokkanna á því hvernig staðan er orðin. Það að stjórnarandstöðuþingmenn komi ítrekað hingað upp til að varpa ljósi á það ástand sem upp er komið, á þeirra ábyrgð, er ekki vandamál stjórnarandstöðunnar, það er það ekki. Ábyrgðin skal vera þar sem hún á heima. Ég bið virðulegan forseta um að sjá til þess að ábyrgðin á ástandinu sem upp er komin fari þangað sem hún á heima.

Hver er sýn forsetans á samkomulagið sem var gert hér fyrir tíu dögum? Hefur forseti ekki áhyggjur af því þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hingað og spottar þetta samkomulag? Hefur forseti ekki áhyggjur af þessari stöðu og þessari miklu (Forseti hringir.) ábyrgð af ófriðnum sem upp er kominn, sem (Forseti hringir.) stafar frá forsætisráðherra sjálfum?