143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[17:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stundum er sagt að sjálfskaparvítin séu verst og mér finnst það svolítið eiga við ástandið núna. Það hefur komið fram að virðulegur forseti hefur reynt að leiða þessi mál í þann farveg að einhver sátt gæti náðst, en aðrir sem spila þar inn í hafa eyðilagt fyrir, eins og formenn stjórnarflokkanna sem hafa ekki gengið í takt. Þess vegna er málið statt þar sem það er. Ég tel ekki hægt að bjóða neinum þingmanni upp á að fara í efnislega umræðu eins og málið er núna. Það væri eins og verið væri að útvarpa eða sjónvarpa einhverju efni og hljóð og mynd færu ekki saman. Það er ekki boðlegt neinum þingmanni að fara í efnislega umræðu þegar ekkert liggur fyrir um hvað kemur út úr fundi sem er fram undan. Það verður að sýna þingmönnum þá virðingu í þessari umræðu að þeir fái að vita nákvæmlega hvar þeir eru staddir í þessu ferli sem er orðið æðiundarlegt.