143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[17:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ófriður í þinginu. Ég veit að hæstv. forseti hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að lægja hér öldur. Samt sem áður hefur hæstv. forsætisráðherra sýnt minni hlutanum í þinginu lítilsvirðingu með því að láta líða tíu daga án þess að láta svo lítið að boða til fundar um svikatillögu sem ríkisstjórn hans flutti hér óboðaða í miklum flýti.

Nú er loksins búið að boða þennan fund og það er jafnvel komin tímasetning á hann. Hann er rétt við það að fara að hefjast og það er ótækt að þingmenn séu settir í þá stöðu að halda ræðu í máli þar sem þeir vita ekki hverjar vendingarnar verða. Á þetta mál að hanga inni á dagskránni eða á að draga hana til baka eins og krafa 50 þús. kjósenda hljóðar upp á?