143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

beiðni um hlé á þingfundi.

[17:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti nefndi að dagskrá hefði legið fyrir frá því á laugardag, ef ég heyrði rétt, en þetta er eini vettvangur okkar þingmanna til að ræða dagskrána, þ.e. að ræða um störf hæstv. forseta.

Ég verð að viðurkenna að þegar við fáum að vita að þessir tíu dagar hafi ekki verið notaðir til að funda og engin viðleitni hafi átt sér stað, og ég hef ekki fengið svör um það hvernig þær tilraunir áttu sér stað, hljótum við að líta þannig á að samkomulagið sé fallið. Það hefði verið eðlilegt ef það hefði hist þannig á að menn gætu ekki fundað vegna fjarveru að menn hefðu bætt að minnsta kosti einum degi við og notað daginn í dag til að koma þessum fundi á og beðið með þingstörfin á meðan. Ég stend við það sem ég sagði áðan, mér finnst ekki hægt að bjóða okkur upp á að fara í að ræða þrjár tillögur með tíu plús fimm mínútum án þess að vita nokkuð hvort menn hætta eftir fyrri umr. og skilji seinni tvö málin eftir á dagskránni og fari bara með eitt þeirra í nefnd.

Það þarf skýrari svör. Ég veit ekki hver á að skrifa undir það. Ég heyri á hæstv. forseta að hann stjórnar því miður ekki (Forseti hringir.) formönnum stjórnarflokkanna. Það er óásættanlegt að vera í þeirri stöðu sem forseti, en valdið er (Forseti hringir.) engu að síður (Forseti hringir.) hjá hæstv. forseta.