143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það ber að harma að hér skuli mál ekki hafa þokast neitt áfram eftir formannafund.

Nú þegar samkomulagið sem hæstv. forseti beitti sér fyrir á sínum tíma virðist ekki hafa verið neins virði lít ég svo á að samkomulagið um ræðutíma varðandi þetta mál sé líka farið. Miðað við það sem maður hefur sjálfur verið að skoða og undirbúa sig, bara fyrir umræðuna í síðustu viku, þá er ég kominn með 60–70 blaðsíður af ummælum og ræðum. Svo á að stilla okkur hér upp og taka þrjár tillögur í einu og með ræðutíma þingmanns tíu plús fimm mínútur. Mér finnst þetta mjög mikil lítilsvirðing.

Menn hafa talað um að þetta mál þurfi góða umræðu, það er jafnvel verið að tala um rökræðu. Það er ekki nokkur leið að fara að ræða þessa tillögu með einhverju loforði um að hinar verði meira og minna ekkert ræddar. Annaðhvort lofa menn okkur, ég bið hæstv. forseta að koma því á framfæri, að það verði þrjár (Forseti hringir.) umræður áður en málið fer í nefnd, (Forseti hringir.) og þær verði allar kláraðar áður en nefndin byrjar að vinna, eða að taka (Forseti hringir.) tillögurnar saman og lengja ræðutímann.