143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að ég ræði hér væntanlega þrjár tillögur saman ætla ég að byrja aðeins að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú er komin upp mjög einkennileg staða. Hér var ítrekað kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta kjörtímabili og talið gríðarlega mikilvægt að þjóðin hefði eitthvað að segja og fengi að koma að ákvörðunum. Ég man alveg eftir því að gagnrýnt var að ekki skyldi hafa verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin spurð hvort hún vildi fara í þann leiðangur að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég velti fyrir mér, af því að gefið er í skyn að ef það hefði verið gert væri staðan allt önnur núna: Hefði þjóðaratkvæðagreiðsla verið haldin 2009 og samþykkt hefði verið að fara í viðræðurnar, væru þá þessi stjórnvöld eitthvað bundin af henni? Væri ekki sami ómöguleiki til staðar eftir sem áður? Mér finnast þetta því frekar glötuð rök, það er eins og af því að þjóðin var ekki spurð þá, sé það of seint núna.

Kannski er spurningin sem stjórnvöld þurfa að spyrja þjóðina þessi: Vill þjóðin að aðildarviðræðum verði slitið? Ég get ekki sætt mig við að farið verði í að slíta viðræðum án þess að þjóðin sé spurð álits, það gengur ekki. Þá spyr ég líka: Treysta stjórnvöld ekki lengur þjóðinni sem kaus hana til valda fyrir tæpu ári? Þetta er sama þjóðin, vænti ég. Þetta er því allt saman mjög skrýtið. Sama fólkið og vildi endilega að þjóðarvilji kæmi fram vill ekkert hlusta á þjóðina eins og staðan er í dag.

Fyrst við ræðum Evrópusambandið þá er ég frekar hlynnt inngöngu svo framarlega sem við fáum góðan samning. Mér finnst þó alveg furðulegt að vera að ræða kosti og galla Evrópusambandsins þegar við höfum ekki samning í höndunum. Ég held að ekki hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla í neinu landi um hvort hefja eigi viðræður eða ekki. Farið er í viðræður, samningur fæst og síðan hefur þjóðin sitt að segja. Þannig hefur það verið í öðrum löndum. En hérna segja stjórnvöld okkur að þau viti að það er ekkert í þessum samningi. Þá læðist að manni sá grunur að stjórnvöld vilji einfaldlega ekki að þjóðin fái að sjá samninginn, það sé bara þannig og það get ég ekki sætt mig við.

Það er líka annað sem veldur mér áhyggjum, það eru gjaldmiðilsmálin. Við erum hérna með gjaldmiðil, krónuna, og stjórnvöld tala eins og krónan sé okkar framtíðargjaldmiðill og þá væntanlega í höftum, vegna þess að ekki sér maður alveg hvernig fara á að því að losa höftin. Ég er ekki alveg sátt við þetta og það virðist ekki vera neitt plan B fyrir hendi, því að tilraunir til að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli, þeim minnsta í heimi, hafa mistekist, það er alveg ljóst. Það væri gaman að fá stjórnarliða í umræðuna til að útskýra hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér með krónuna sem gjaldmiðil, hvort það er þannig sem við viljum byggja upp þetta þjóðfélag, með krónunni. Þegar stór hluti atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar kallar eftir meiri stöðugleika og kallar eftir að viðræðum verði lokið og mörg fyrirtæki hafa beinlínis kallað eftir því að hér verði tekinn upp annar gjaldmiðill og þá evra, eigum við þá ekkert að hlusta á þær raddir? Ég hef beinlínis áhyggjur af því að ungt fólk muni kjósa að búa annars staðar, hugsanlega í hinu hræðilega Evrópusambandi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi. Og það er ekki framtíðarsýn sem mér líst vel á. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál.

Síðan er eitt sem mig langar aðeins til að koma inn á, það er kannski svolítið flókin umræða og spurning hvort ég á að hætta mér út í hana, en mér finnst eins og það sé viss valdhroki í gangi. Og mér finnst að við sem erum hér á þingi, hvort sem það er meiri hlutinn eða minni hlutinn, ættum að hafa það í huga að við sitjum hér í krafti kosningakerfis sem ekki er 100% fullkomið og endurspeglar ekkert endilega 100% vilja þjóðarinnar. Sum okkar eru hérna hreinlega fyrir tilviljun, einhver flakkari sem fer á milli kjördæma og uppbótarþingmenn. Við erum með kerfi þar sem ekki er einu sinni jafnt vægi atkvæða. Ég væri t.d. ekki á þingi ef það væri jafnt vægi atkvæða og það sama á við um marga aðra hérna. Ef það væri meiri áhersla á persónukjör væri ég og örugglega fleiri ekki hér, við vitum ekkert um það.

Ég hef heyrt stjórnarliða segja: Við vorum kosin hér síðasta vor og við vorum kosin til að breyta. Já, það er rétt að 51% þjóðarinnar kaus þessa tvo flokka, það var nokkuð skýrt. En mér finnst að þingmenn og stjórnvöld mættu sýna aðeins meiri auðmýkt, vegna þess að það getur hreinlega skipt máli hvenær kosningarnar eru, hvernig kosningaherferðir heppnast, hvaða kosningaloforð eru sett fram. Hefði verið kosið þremur mánuðum síðar hefði niðurstaðan getað orðið önnur. Þeir sem eru við völd sitja hér ekki í krafti einhvers guðdómlegs valds. Þeir sitja hér í krafti kosningakerfis sem er eins lýðræðislegt og kannski eins gott og við teljum það geta orðið, en það er ekki fullkomið.

Mér finnst því svolítið óþægilegt að hlusta á slíka orðræðu og að þeir sem sitja í minni hluta og eru fulltrúar ákveðins hóps kjósenda skipti litlu máli. Við skulum muna það að 12% kjósenda eiga ekki fulltrúa hér á þingi vegna þess að atkvæðin féllu dauð niður. Í kosningakerfi okkar er ekkert hægt að segja: Ef minn flokkur eða sá flokkur sem ég kýs kemst ekki inn á þing þá er þetta kostur númer tvö. Það er ekki hægt, þannig að við vitum ekki hvar þessi 12% hefðu lent. Þetta er kannski svolítið óskýrt hjá mér en ég er að reyna að segja: Nálgumst þetta verkefni af aðeins meiri auðmýkt.

Ég held þess vegna að kosningakerfið og hinar lýðræðislegu kosningar sem haldnar eru á fjögurra ára fresti sé að sumu leyti ófullkomið fyrirkomulag. Þess vegna er krafan um þjóðaratkvæðagreiðslur að verða sífellt háværari, það er ekki þannig að kosningin síðasta vor hafi verið ein allsherjarþjóðaratkvæðagreiðsla um öll möguleg og ómöguleg mál, stefnumál og kosningaloforð og ekki-loforð flokkanna. Það er ekki þannig. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að við spyrjum þjóðina inn í milli í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hver hennar skoðun sé og ég vil hvetja stjórnvöld til að gera það þá núna. Það væri alveg skelfilegt ef viðræðum yrði slitið án þess að þjóðin væri spurð. Ég treysti því að það verði ekki gert.

Það er eins gott að nýta tímann því að við fáum nú ekkert allt of langan tíma í þessar umræður. Af því að ég minntist á atvinnulífið áðan, sem kallar eftir gjaldmiðli, langar mig aðeins að minnast á risastórt hagsmunamál fyrir heimilin í landinu, það eru vaxtakjör, stöðugleiki. Ef við getum lækkað vextina, afnumið verðtryggingu með því að taka upp annan gjaldmiðil þá er til mikils að vinna og við verðum að skoða allar leiðir í því sambandi. Ef við ætlum að slá þann möguleika út af borðinu sem er að taka upp evru með stuðningi Evrópska seðlabankans þá kæmi hugsanlega til greina að taka einhliða upp aðra mynt. Aðrar þjóðir hafa gert það. Að vísu er það möguleiki sem mér fannst Seðlabankinn slá út af borðinu í skýrslu sinni. En það verður þá líka fróðlegt að heyra hvort stjórnarliðum hugnast að taka einhliða upp aðra mynt, hvort það er eitthvert plan B eða hvort planið er einfaldlega að vera áfram með krónuna á Íslandi, hvort okkur finnst það boðlegt. Mér finnst það ekki.