143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel það vera sérstaka áætlun í efnahagsmálum að skoða það að taka upp evru með því að ganga í Evrópusambandið og gera það í samstarfi við Evrópska seðlabankann. Já, það er svarið.

Hvað gerist ef við slítum viðræðum? Þá falla þessar aðildarviðræður niður og við hreinlega slítum þeim. Það sem ég hef áhyggjur af er: Verður auðvelt að taka þær upp aftur ef ný ríkisstjórn verður kosin hérna eftir þrjú ár? Það eru 28 ríki, ef ég skil rétt, sem þurfa að samþykkja aðildarumsóknina og það gæti orðið stækkunarþreyta í Evrópusambandinu. Ég held ekki að Evrópusambandið sé svo óskaplega sólgið í að fá Ísland, við erum velkomin, en það er ekki eins og talað hefur verið um að það bíði eftir því að komast yfir okkur og ná undir sig auðlindunum. Já, ég óttast að það verði þá kannski ekki endilega auðvelt að sækja um aftur. Ég vildi frekar að þetta yrði lagt á ís eins og fordæmi er fyrir og við getum þá tekið upp aðildarviðræðurnar að nýju ef ný ríkisstjórn tekur við. (Gripið fram í: Nei, nei.) Það er ljóst að þjóðin vill klára þetta. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hann ekki hlustað á trumbusláttinn hérna úti á Austurvelli og hefur hann ekki skoðað undirskriftalistann sem er í gangi í þjóðfélaginu? Mér finnst ríkisstjórnin vera að fara gegn vilja þjóðarinnar í þessu máli.

Þriðja spurningin hvort mér væri ekki fullljóst — ég náði henni ekki alveg, bið hv. þingmann að … (GÞÞ: Er ekki fullljóst hvað það er að vera í Evrópusambandinu, hvað það felur í sér?) Ég tek þá spurningu í næsta svari, ég næ henni ekki núna.