143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur ekki verið áætlun í efnahagsmálum að skoða að taka upp evru eins og hv. þingmaður nefnir. (Gripið fram í: Jú, víst …) Það er fullkomlega útilokað, það er ekki áætlun í efnahagsmálum. (RM: Það er meiri áætlun …) Þó svo hv. þm. Róbert Marshall kalli fram í þá er það ekki áætlun. (RM: Það er meiri áætlun en síðast …)

Hv. þingmaður segir að Evrópusambandið sé ekki sólgið í að fá Ísland. Þau lönd sem hafa gengið í Evrópusambandið undanfarið hafa þurft að borga með sér. Það er algerlega ljóst að Ísland muni þurfa að borga nokkra milljarða á ári með sér. Hví í ósköpunum skyldi Evrópusambandið ekki vilja fá Ísland inn? Er eitthvað sem bendir til þess? Hv. þingmaður sagði að ef þessum viðræðum verði slitið þá falli þær niður. Þær eru ekki í gangi. Það var síðasta ríkisstjórn sem hætti viðræðunum.

Ég spurði hv. þingmann hvort henni væri ekki fullljóst hvað fælist í því að vera í Evrópusambandinu. Enn ein skýrslan komin fram sem (Forseti hringir.) fer nákvæmlega í það hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Samt kemur hv. þingmaður hér og er í þessu (Forseti hringir.) leikriti að kíkja í pakkann, sem er fyrir neðan allar hellur.

(Forseti (SilG): Forseti biður þingmann um að virða ræðutíma.)