143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að mótmælin og það sem gerðist í þjóðfélaginu eftir að þessari þingsályktunartillögu var allt að því hent inn í þingið hafi komið stjórnvöldum verulega á óvart. Það sem hefur gerst í rauninni er að fólk sem var ekkert sérstaklega að spá í þetta mál og var ekki endilega hlynnt Evrópusambandinu er farið að kalla eftir því að fá að segja sína skoðun í þessu máli. Það finnst mér mjög merkilegt og í rauninni bara gott að þjóðin vilji fá að segja sitt.

Ég held að flestir hafi getað sætt sig við að viðræðurnar mundu liggja á ís og menn mundu aðeins skoða málið. Það eru fordæmi fyrir því og ég skildi það þannig að Evrópusambandið gæti alveg lifað með því, en að afturkalla umsóknina hefur hleypt illu blóði í þjóðina. Þetta snýst ekkert um eitthvert þras milli okkar hér í minni hluta og meiri hluta. Við í minni hlutanum munum ekki einhvern veginn vinna þetta mál, það er fólkið þarna úti sem er að skrifa undir undirskriftalista og mætir og mótmælir.

Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að þessi þingsályktunartillaga muni renna í gegnum þingið og aðildarviðræðum verði slitið. Ég held að það muni ekki gerast.

Það er líka skrýtið að taka þátt í svona umræðu þegar við vitum að sáttafundir eru fyrirhugaðir og formenn flokkanna eru væntanlega að reyna að finna einhverja lausn eða einhvern flöt á þessu máli. Það er auðvitað það sem við vonum að sé að gerast og væntanlega er það að gerast.