143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á hag almennings í ræðu sinni af því að ganga inn í Evrópusambandið og einnig í andsvörum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson. Nú hefur Seðlabankinn gert mjög góða gjaldmiðilsgreiningu upp á 600 blaðsíður og er niðurstaðan sú að hagstæðast væri að taka upp evru og ef ekki, að vera með krónuna áfram. Þar er hermilíkan sem sýnir kostina fyrir þjóðina að taka upp evru. En í þeirri skýrslu sem við höfum verið að ræða hér í þinginu er lítið að mínu mati, og ég vil athuga hvort hv. þingmaður er mér sammála, fjallað um hag almennings af því að ganga í Evrópusambandið.

Telur hv. þingmaður ekki mikilvægt að bíða eftir skýrslu frá atvinnulífinu sem væntanlega skoðar hlutina út frá sínum hagsmunum? Oft fer hagur atvinnulífsins og launþega saman. Það er þá hagur allra í landinu.