143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom þar inn á hluti sem skipta miklu máli og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom líka inn á það. Það er einmitt það að ríkisstjórnin hefur nú tekið þessa U-beygju og segir: Hér ráðum við af því að við höfum svo mikinn meiri hluta. Hún er vissulega með yfir 60% meiri hluta í þinginu en er kosin með 51% atkvæða en eins og hv. þingmaður benti á féllu 12% atkvæða dauð niður. Það er mjög mikilsvert að leggja áherslu á það og ekki síst hitt, sem við hv. þingmaður höfum kannski ekki sömu skoðun á, sem er jafnvægi atkvæða í landinu, að við höfum ekki öll jafnan atkvæðisrétt þó að einkennilegt megi virðast.

Ef ég skildi þingmanninn rétt þá fellst hún ekki á þá röksemd sem menn nota að ekki sé hægt að kíkja í pakkann eins og sagt er, sem mér finnst fáránlegt orðalag, en að bíða megi eftir samningi. Hvað er það sem hún, sem er jákvæð, telur helst að þyrfti að liggja ljóst fyrir sem sérlausn, í hvaða atriðum er það helst þá sem hún telur að við þurfum að fá sérlausn? Ég geri ráð fyrir að það sé í sjávarútvegi og síðan hvernig við gætum aðlagast gjaldmiðlinum en hún gæti kannski farið aðeins nánar út í það.