143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú halda þeir sem leggja fram þessa tillögu um að slíta samningum við Evrópusambandið því hátt á lofti að þeir vilji samt sem áður sem mest og best samstarf við Evrópuríkin og halda áfram samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Í Evrópska efnahagssvæðinu eru teknar margar ákvarðanir sem við þurfum að innleiða í okkar löggjöf en við erum aldrei með þegar þær eru teknar því að við fáum ekki að koma inn á fundina þar sem ákvarðanir eru teknar. Finnst þingmanninum þetta skipta máli, þessi breyting sem yrði á ef við yrðum í Evrópusambandinu, ef við fengjum að ákveða sjálf, ef við gætum átt þátt í málamiðlunum? Telur hún að við getum haft mikil áhrif á Evrópulöggjöfina án þess að vera í Evrópusambandinu?