143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það væri betra að hafa einhverja aðkomu að þeirri löggjöf sem við erum að innleiða hér. Ástæðan fyrir því að ég varð jákvæð gagnvart Evrópusambandinu, fyrir utan að hafa búið í tveimur Evrópusambandslöndum og líkað það vel, er sú að margar réttarbætur til handa neytendum hafa komið í gegnum EES-tilskipanir. Það eru alls konar mál sem íslensk stjórnvöld hefðu aldrei fundið upp á.

Hið sama á við í umhverfismálum og á fleiri málasviðum. Við erum að bæta þjóðfélag okkar með því að innleiða tilskipanir. Ástæðan fyrir því að engin ókyrrð er í kringum EES-samninginn er að hann hefur reynst okkur mjög vel. Nú er spurning hvort við viljum stíga skrefið til fulls.

Ég hef heyrt manneskju sem þekkir vel til segja að það sé miklu minna skref fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið núna en þegar við tókum upp EES-samninginn. Við mundum varla finna fyrir því þannig séð dags daglega.