143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Náðarsamlegast og í mestu vinsemd spurði ég hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hvort menn ættu bara stundum að biðjast afsökunar ef þeir segðu að viðkomandi hv. þingmaður skrökvaði. Ég veit að fleiri hv. þingmenn eru á leiðinni í ræðustólinn og þess vegna ítreka ég þessa spurningu.

Hér fóru menn mjög mikinn, heimtuðu afsökunarbeiðni af hæstv. ráðherra og fóru fram á afskipti forseta þingsins af málinu. Síðan kemur stjórnarandstæðingur og gerir nákvæmlega það sama og ég vil bara vita, og ég held að allir eigi rétt á að vita það, hvort þessi regla sem nokkrir þingmenn hv. stjórnarandstöðu fóru fram á fyrir nokkrum dögum (Forseti hringir.) sé ekki lengur í gildi.