143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er ljóst og hefur komið mjög skýrt fram að það er ekkert samkomulag í gangi þannig að við munum að sjálfsögðu ræða allar þessar tillögur með öllum þeim tíma sem þarf. Það er ekkert sameiginlega rætt um þessar tillögur úr því að það er ekkert tilefni til þess. Það er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið það mjög skýrt út að það á að slíta þessum viðræðum án aðkomu þjóðarinnar.

Við höfum lagt til að formenn stjórnarflokkanna komi með skriflega tillögu um úrlausn á málinu þar sem okkur yrði gert betra tilboð en það sem var á borðinu fyrir tveimur vikum. Þangað til þurfum við að nýta þann tíma sem við mögulega höfum til að hvetja (Forseti hringir.) stjórnarliða til að koma með ásættanlegt mótframboð og mótlag við okkur hin sem höfum beðið í tólf daga (Forseti hringir.) eftir að þeir virði það loforð sem hér var gefið í þarsíðustu viku.