143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega kom fréttatilkynning frá Alþýðusambandi Íslands þar sem segir að umtalsverðar hækkanir hafi orðið á matvörumarkaði síðastliðna 18 mánuði. Þetta hefur gerst á sama tíma og gengi íslensku krónunnar hefur styrkst verulega gagnvart helstu viðskiptamiðlum en það dugar ekki til þannig að sveiflan er í raun miklu meiri en kemur fram í könnun ASÍ.

Það er athyglisvert að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er 35% vísitölugrunnsins á neysluvörur innfluttar neysluvörur og aðrar innfluttar vörur.

Nú hefur það komið fram áður að síðustu 12–13 mánuði hefur gengi krónunnar styrkst að meðaltali um 13%, mismunandi eftir gjaldmiðlum. Ef helmingi af þessari styrkingu væri skilað til baka, 5%, mundi það leiða til 2% lækkunar á neysluvöruvísitölu næsta mánuð á eftir. Og hvað þýðir 2% vísitölulækkun, ágætu þingmenn? Það þýðir að verðtryggð lán almennings í landinu mundu lækka um 34 milljarða íslenskra króna. Þetta þýðir með öðrum orðum að meðan verslunin skilar ekki til baka styrkingunni sem hefur orðið á íslensku krónunni eru verðtryggðu lánin okkar allra, sem ættu að vera að lækka, að hækka. Og ég segi, herra forseti, að ábyrgð þessa fólks er mikil. Ég held að tími sé kominn til að menn horfist í augu við þá samfélagslegu ábyrgð sem þeir bera meðan sívaxandi samþjöppun á sér stað á þessum markaði.