143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í morgun áttum við í utanríkismálanefnd tvo mjög athyglisverða fundi, annan með Garrí Kasparov um ástandið í Úkraínu og hinn með sendinefnd frá Kólumbíu. Mig langar svolítið að velta því upp til stjórnarþingmanna og annarra þingmanna sem tóku þátt í að tryggja fríverslunarsamning við Kína hvað þingmönnum finnist um utanríkisstefnu okkar, sem mér finnst mjög óskýr og helstu vísbendingar um utanríkisstefnuna koma frá véfréttinni sem ekki á sæti á Alþingi en allir vita hver er.

Ég hef pínulitlar áhyggjur af því að við munum ekki beita okkur nægilega til að þrýsta á rússnesk stjórnvöld fara að ráðum Garrís Kasparovs, sem mér þóttu mjög skynsamleg, og beita okkur í okkar alþjóðlega starfi til að settur verði alvöruþrýstingur á Pútín og hans meðreiðarmenn.

Ég er pínulítið ringluð gagnvart utanríkisstefnu Íslands. Mér finnst við vera að færast nær löndum sem ég hefði ekki haldið að við ættum endilega mikla samleið með, eins og Rússlandi og Kína, á meðan við færumst frá Evrópu. Því langar mig að heyra í öðrum stjórnarþingmönnum um þetta mál. Ég vonast til þess að þegar hér fara fram efnislegar umræður á eftir um slit á Evrópusambandsumræðunni að ég fái að heyra í stjórnarliðum. Ég sé að það eru bara þrír úr þeirra liði sem hafa sett sig á mælendaskrá í umræðunum á eftir (Forseti hringir.) og hvet þá til að taka þátt í efnislegri umræðu.