143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ítreka það hér við þingheim að allsherjar- og menntamálanefnd er vakin og sofin yfir verkum sínum og gengur glaðvakandi til starfa hvern dag hér í þinginu hið minnsta.

Þannig er staðan í allsherjar- og menntamálanefnd að okkur hefur verið falið að fjalla um ansi mörg mál á þessum þingvetri. Við höfum engu að síður verið ágætlega dugleg við að funda og haldið marga aukafundi til að komast yfir þann málafjölda sem okkur hefur verið falið að fara yfir. Í morgun afgreiddi nefndin þrjú mál, þar af tvö sem hún hefur sjálf flutt og eitt þingmannamál. Við erum enn með nokkur stór frumvörp frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar til meðferðar sem taka þann tíma sem við erum búin að áætla nú næstu dagana en síðan sjáum við til hvaða pláss verður fyrir önnur mál á þeim vikum sem við eigum eftir til vinnslu mála í þinginu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að nefndin hafi unnið mjög vel, við höfum verið tiltölulega samhent og reynt að einbeita okkur að þeim verkefnum sem okkur hafa verið falin þannig að við náum að afgreiða mál.

Það er rétt að benda á að af þeim 15 málum sem ráðherrar hafa lagt fram hafa 11 verið afgreidd frá nefndinni, ekki héðan úr þinginu heldur frá nefndinni. Þrjú þingmannamál hafa verið afgreidd út úr nefndinni og þau þrjú mál sem nefndin hefur sjálf flutt, þannig að ég tel að í ljósi sögunnar hafi tiltölulega mörgum málum verið sinnt vel í nefndinni, en að sjálfsögðu höfum við ekki náð að fara yfir öll þau þingmannamál sem borist hafa en ég tel að það sé rétt að þau hafi öll farið til umsagnar.

Varðandi það tiltekna mál sem hv. þingmaður spyr um hafa borist 13 umsagnir, sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar. Sumir vilja flýta, aðrir vilja seinka og enn aðrir vilja standa í stað þannig að um þetta eru mjög skiptar skoðanir miðað við þær umsagnir sem okkur hafa borist.