143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hér á árum áður var vinsælt að gera lítið úr því sem kallað var eftirlitsiðnaður. Það eru opinberar stofnanir sem eiga að fylgjast með því að farið sé að þeim reglum sem gilda eiga um ýmis málefni, um samkeppni, fjármálastofnanir, umhverfismál, matvælaöryggi og ýmislegt fleira. Við vitum hvernig fór fyrir fjármálastofnunum hér á landi og hvaða afdrif það hafði fyrir efnahagslífið í landinu og við munum eftir fréttum um að mengunarvörnum hafi ekki verið sinnt sem skyldi í sorpeyðingarstöðvunum, svo eitthvað sé nefnt.

Ólafur Stephensen, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, vekur í dag athygli á frétt sem barst í síðustu viku um fyrstu vettvangsathugun Eftirlitsstofnunar EFTA í íslenskum alifuglasláturhúsum og kjúklingabúum eftir að við tókum upp reglugerðir eða tilskipanir ESB eða EES í þessum málum. Það er sannast að segja ekki fögur lýsing og, eins og leiðarahöfundur bendir á, allt annar raunveruleiki en við teljum okkur trú um.

Það er landlægt að við teljum okkur best og fremst í öllu og landbúnaðarvörur okkar séu öllum öðrum betri og fremri. Því miður er það ekki svo og við þurfum að vera á verði í þessum efnum eins og öðrum. Ég vek athygli á þessu hérna vegna þess að mér finnst nokkuð hafa borið á því síðustu mánuði að fólk sé farið að andskotast út í eftirlitsiðnaðinn svokallaða.

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmann að gæta orðavals.)

Ég hélt að það mætti nota „andskotast út í“, en ég biðst afsökunar. [Hlátur í þingsal.]

Að reglur og eftirlit sé dragbítur á atvinnulífið í landinu. Auðvitað þurfa fyrirtæki að hafa ákveðið frelsi en það þýðir ekki að þau eigi ekki að fylgja þeim reglum sem settar eru um atvinnuvegina. Það virðist alls ekki vanþörf á að fylgja því eftir að svo sé. Það þarf að vera agi þar eins og í ríkisfjármálunum.