143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Árið 2010 var ákveðið að allir ökunemar þyrftu að ljúka námi í ökugerði eða ökuskóla 3 áður en farið væri í ökupróf. Þetta verklag felur í sér talsverðan kostnað og kemur niður á fólki sem býr langt frá höfuðborgarsvæðinu. Áður áttu þeir sem stunduðu ökunám aðeins að taka svokallaðan ökuskóla 1 og 2 sem eru bóknámsnámskeið. 2010 var ökuskóla 3 bætt inn en hann miðar að því að nemendur fari í ökugerði sem er aðeins starfrækt í Reykjavík.

Ökuskóli 3 felur í sér að lágmarki þrjár kennslustundir í stofu og tvær kennslustundir í bifreið þar sem nemendum er kennt að aka og bregðast við í hálku. Nú veit ég ekki hvort allir gera sér grein fyrir því en til dæmis á Vestfjörðum og Austfjörðum er talsvert um snjókomu og nokkuð um hálku á vegum stóran hluta ársins. Nemendur sem sækja ökutíma hjá kennara eða forráðamanni á tímabilinu september til maí á þessu svæði komast sjaldnast hjá því að keyra í hálku og snjó, ef nokkurn tíma.

Ég athugaði hvort nemendur þyrftu að fara til Reykjavíkur í ökuskóla 3 til að fá fullnaðarskírteini samkvæmt lögum en það er hvorki bundið í lög né reglugerðir að þeir sem sækja um ökunám þurfi að fara til Reykjavíkur til að stunda nám í ökugerði, en ökugerði er aðeins starfrækt í Reykjavík svo að það kemur út á eitt.

Ökuskóli 1 og 2 með kennslugögnum kostar um 30 þúsund, verkleg kennsla með 15 ökutímum 115 þúsund, bóklegt próf 3 þúsund og verklegt 8.400 samkvæmt gjaldi Frumherja. Ökuskóli 3 kostar svo 36 þúsund og flugmiði frá Ísafirði eða Egilsstöðum til Reykjavíkur kostar 20–25 þúsund og fram og til baka er það þá 40–50 þúsund.

Ég tel rétt að við endurskoðum þessa ákvörðun og athugum hvort ekki sé hægt að setja upp ökugerðisbraut í minni byggðum á vissu tímabili yfir vetrartímann eða leggja meiri áherslu á að nemendur stundi ökunám og setjist reglulega undir stýri allt árið áður en þeim er veitt ökuskírteini og komist þá ekki hjá því að aka í hálku og læra rétt viðbrögð. Það er varla sanngjarnt eða lögmætt að ætlast til þess að ólögráða einstaklingur ferðist þvert yfir landið (Forseti hringir.) til að læra í fimm kennslustundir það sem hægt er að kenna (Forseti hringir.) á heimaslóðum ef vilji er til.

Ég mun (Forseti hringir.) undirbúa fyrirspurn þessa efnis.