143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ýmislegt er sagt um stjórnmálamenn. Maður lærir það fljótt, eftir að hafa orðið þingmaður, að það þykir nokkurn veginn í lagi að tala illa um stjórnmálamenn, alveg sama hvort þeir hafa gert eitthvað eða ekki, hvort þeir reyna að gera gott eða ekki, hvort þeir segja satt eða ekki. Það virðist engu máli skipta. Það er rosalega auðvelt að tala illa um stjórnmálamenn. Þetta er eitt af því sem ég vara sérstaklega ungt fólk við að gera vegna þess að þetta hefur fælingarmátt gagnvart því unga hæfa fólki sem mundi bjóða sig fram til Alþingis en elst upp í heimi þar sem allt í lagi er að líta niður á allt sem varðar stjórnmál. Það er mjög sorgleg þróun, mjög óholl fyrir lýðræðið að mínu mati.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega það að stjórnmálamenn geri ekki það sem þeir segjast ætla að gera og svíki loforðin. Ég ber alveg virðingu fyrir því að erfitt getur verið að uppfylla sum loforð og það getur meira að segja verið erfitt að hafa það á hreinu hvað nákvæmlega sé loforð og hvað sé skoðun.

En hér er einmitt um frekar skýrt loforð að ræða. Innt var eftir skýringum á kosningaloforði, sem var kynnt sem kosningaloforð, og svörin voru þau að það skyldi verða þjóðaratkvæðagreiðsla, og það var ítrekað gert. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta var mjög skýrt loforð. En ég velti fyrir mér, sérstaklega sem minnihlutaþingmaður, mér finnst svolítið leiðinlegt að allt Alþingi þurfi að taka á sig skömmina sem kemur kannski frá ríkisstjórninni. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að ríkisstjórnin hafi, eins og hlutirnir eru núna, of mikið vald yfir því hvað Alþingi gerir.