143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Eins og kom fram í máli hennar eru þetta óþægilega stuttar ræður fyrir svo stórt mál en mikilvægt auðvitað að ræða svo stóra spurningu efnislega.

Mjög stór meiri hluti þjóðarinnar er á því að þjóðin eigi að koma að fullgerðum samningi eða a.m.k. spurningunni um það hvernig þessu máli eigi að vinda fram. Hins vegar telur einhver hluti þjóðarinnar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins, einhverjir telja að þeir þurfi að sjá samninginn til þess að taka afstöðu og enn aðrir telja að það sé eina leiðin og besta leiðin að ganga í Evrópusambandið. Þá velti ég fyrir mér, af því að hv. þingmaður er úr þeim flokki sem hefur talað hvað skýrast í þessu efni: Telur þingmaðurinn eitthvað geta komið út úr samningaviðræðum, ef þeim yndi fram og við fengjum þann besta samning sem væri í boði, sem gerði að verkum að sú niðurstaða sem við þjóðinni blasti væri að ekki væri ráðlegt að ganga í Evrópusambandið? Hvaða þættir væru það þá, ef þeir væru einhverjir? Stundum hefur verið talað um tiltekna hagsmuni, stærstu hagsmuni þjóðarinnar að því er varðar fiskveiðar, landbúnað o.s.frv. Telur þingmaðurinn í raun og veru að það mundi breyta afstöðu þeirra sem skýrasta afstöðu hafa til aðildar að Evrópusambandinu og telja það einu leiðina, að eitthvað gæti komið út úr samningaviðræðum sem breytti afstöðu þeirra?