143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það gæti verið. Ég held að þeir sem krefjast þess núna hér fyrir utan og með undirskriftum sínum að loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu verði efnt muni ekki endilega allir segja að þeir vilji halda áfram aðildarviðræðum. Sumir segja ábyggilega: Nei, ég vil það ekki. Aðrir segja: Já — af því að þeir þykjast nokkuð sannfærðir. Svo eru enn aðrir sem vilja halda áfram en eru svo sem ekkert vissir um að neitt sem þeim þóknast geti komið út úr samningaviðræðum og vilja helst ekki ganga í þetta bandalag.

Ég held vissulega, virðulegi forseti, að það gæti eitthvað gerst ef við náum ekki viðunandi samningi, það er alveg rétt. Mér finnst orðið „viðunandi“ ekki nógu gott en ég kann ekki annað orð til að lýsa nákvæmlega því sem ég á við.

Ég tel það til dæmis skipta meginmáli að við getum rekið sjávarútveg. Sjávarútvegur hér er náttúrlega allt öðruvísi en sjávarútvegur alls staðar annars staðar í heiminum. Útgerðir eru bullandi gróðafyrirtæki. Það væri frágangssök, eins og sagt er, ef við gætum ekki stundað áfram sjávarútveg af sömu hagkvæmni og nú, það væri frágangssök fyrir mína parta. Á hinn bóginn vil ég líka að sjávarútvegurinn, eins og hann er rekinn í dag utan Evrópusambandsins, greiði meira í sameiginlega sjóði landsins en hann gerir nú, vissulega, það er alveg mögulegt.