143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála mati hv. þingmanns að þessir ríku hagsmunir kynnu við núverandi kringumstæður að breyta afstöðu þeirra sem hvað sterkastar skoðanir hafa að því er varðar þessa leið.

Þá vil ég spyrja þingmanninn í framhaldi af þessu: Gefum okkur að sú staða væri komin upp að hér væri samningur á borðinu þar sem áðurnefndum hagsmunum væri ekki til haga haldið nægilega fyllilega og hann yrði þá felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða það sem gæti auðvitað gerst fyrr í ferlinu að stjórnvöld teldu einfaldlega samninginn vera þeirrar gerðar að hann væri ekki ásættanlegur undir nokkrum kringumstæðum, hvert væri þá hitt planið að mati þess flokks sem aðhyllist aðild hvað mest, sem er Samfylkingin? Ég held að alveg óháð því hvaða afstöðu maður hefur til aðildar að Evrópusambandinu þurfi maður að nálgast það þannig að maður hugsi líka leiðina ef þjóðin segir nei.

Ég held að það sé spurningin um ábyrga afstöðu til svo stórrar spurningar og ég sakna þess í umræðunni vegna þess að hún hefur verið svo svart/hvít, og þá er ég ekkert að víkja mér undan ábyrgð á því að við höfum leyft okkur að vera með mjög svart/hvíta sýn á þetta, það sé annaðhvort inn eða út. En við þurfum að ræða okkur í gegnum þessa senu, þ.e. í gegnum hvern leikinn á fætur öðrum: Hver yrði þá staðan í hugum eindregnustu aðildarsinna ef þjóðin væri annað tveggja búin að hafna samningi eða þá einfaldlega að ásættanlegur samningur væri ekki í boði?