143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af tveimur vondum aðstæðum sem hv. þingmaður nefnir hér, sem í báðum tilfellum þýðir að samningar næðust ekki, annaðhvort vegna þess að það væri fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu eða vegna þess að samningar næðust ekki þá tel ég það sannast sagna miklu líklegra að ekki yrði gengið frá samningi ef ekki næst einhver — ég held að orðið sem eigi að nota núna sé „sérlausn“, sem gerir okkur kleift að reka hér sjávarútveg af sömu hagkvæmni og við gerum í dag, vegna þess að ég sé ekki að nein stjórnvöld mundu skrifa undir slíkan samning fyrir hönd þjóðarinnar.

Varðandi hitt atriðið er það alveg ljóst að þá er það krónan, en það er mjög erfitt. Þá þurfum við að hafa aga í ríkisfjármálum fyrst og fremst, við þurfum að hafa aga í peningastjórninni. Það hefur okkur ekki tekist og þess vegna held ég að það sé svo nauðsynlegt að við förum inn í þetta samstarf vegna þess að þá mundu aðstæður krefjast þess að við héldum þeim aga sem nauðsynlegur er. Og þess vegna er nauðsynlegt, eins og ég kom inn á í störfum þingsins áðan, að hafa eftirlitsstofnanir sem fylgjast með og þar fram eftir götunum, vegna þess að maðurinn er ekki fullkominn. Þess vegna þarf hann að byggja í kringum sig eitthvert kerfi til að reyna að halda sig á beinu brautinni, (Forseti hringir.) hinum þrönga, erfiða vegi, sem hún getur verið.