143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir að koma í andsvör við mig, ég kann vel að meta það.

Á fundi með Garrí Kasparov í utanríkismálanefnd í morgun komu fram hugmyndir hans um hvað best væri að gera til að fyrirbyggja að Pútín haldi áfram að þenja sig meira í Evrópu. Hann ræddi þar á meðal um efnahagsþvinganir. Mig langaði að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, fyrst ég hef nú orðið, hvort það kæmi til greina að Íslendingar tækju þátt í slíkum aðgerðum, hvað hæstv. utanríkisráðherra finnst um slíka taktík.

Ég hvatti ríkisstjórnina til að koma hreint fram, mér finnst það mikilvægt. Mér finnst gott að svona snemma á kjörtímabilinu sé ljóst hver stefna ríkisstjórnarinnar er varðandi Evrópumálin þó að ég hafi ekki átt von á ályktun af þessu tagi, sem fer vægast sagt illa í mjög marga og þar á meðal mig. Mér finnst svo mikilvægt, og mér er alveg sama hver situr við ríkisstjórnarborðið, að við höldum áfram á þeirri vegferð sem við hæstv. utanríkisráðherra vorum mjög samhent í, að heimila og hvetja þjóðina til að taka þátt í mikilsverðum ákvörðunum til framtíðar.

Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru svo sannarlega mikilsverðar og stór ákvörðun til framtíðar.