143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðuna þar sem hún fór yfir heildarsýn á samskipti Íslands við umheiminn ef svo má að orði komast. Það er varla hægt að ræða þessa tillögu hér án þess að taka þetta stóra samhengi inn í. Það sem hvarflaði að mér meðan ég hlustaði á hv. þingmann, því að hún var að vísa til þess sem hefur verið mikið í umræðunni um aukin samskipti Íslands í austurátt, við Rússland, Kína o.fl., er að það er vissulega rétt að það er ekki bara um fríverslunarsamning við Kína að ræða heldur er líka aukin áhersla á samstarf þessara þjóða, til að mynda hvað varðar norðurslóðir.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur hennar stjórnmálahreyfing, Píratar, rætt þetta Evrópusambandsmál? Nú hefur sú stjórnmálahreyfing fyrst og fremst lagt áherslu á að þjóðin taki þessa ákvörðun. Hefur stjórnmálahreyfing Pírata rætt um að stefna eigi inn í Evrópusambandið og að það sé þá eðlilegt val í alþjóðasamstarfi miðað við þá valkosti sem hv. þingmaður lýsti hér sem er þá annað samstarf eða er þetta eitthvað sem þið teljið fyrst og fremst að þjóðin eigi að ákveða?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um hennar persónulegu framtíðarsýn hvað varðar alþjóðlegt samstarf Íslands. Við erum lítil þjóð og þurfum á alþjóðlegu samstarfi að halda. Hvar eigum við að rækta samskiptin? Er best að gera það innan ESB eða er best að gera það með virku samstarfi við ólíkar þjóðir og þá ekki síst nærsamfélagið? Þá vitna ég til Evrópu en ekki bara Evrópusambandsins, Norðurlandanna og annarra samstarfsaðila.