143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er mjög margt athyglisvert að gerast og alls konar hugmyndir uppi um einhvers konar samstarf milli Norðurlandaþjóðanna. Við gætum til dæmis gengið í Noreg ef Norðmenn vildu hafa okkur með og prófað að ganga inn í smærra bandalag ef svo bæri undir. Ég vil benda á eitt sem mér finnst svolítið mikilvægt, t.d. varðandi Kínasamninginn, ég er svolítið með hann á heilanum. Ég hefði kosið að við hefðum gert það í gegnum EFTA. Ég hefði kosið að við hefðum gert það eins og við höfum yfirleitt gert fríverslunarsamningana okkar. Það eru bara tvö önnur lönd sem við höfum gert sambærilega samninga við og það eru Grænland og Færeyjar. Þá er þetta dálítið stórt stökk og ég skil ekki alveg stefnubreytinguna þar.

Við hv. þingmaður þekkjum það og höfum rætt það út og suður að það er til dæmis mjög slæmt að hafa bara álfyrirtæki því að þá verðum við undir of miklum áhrifum frá einni tegund af iðnaði. Nú sjáum við til dæmis að orkuverð til álfyrirtækjanna skilar ekki neinum hagnaði inn í Landsvirkjun heldur tapi. Ef við pössum okkur ekki að lenda ekki undir hælnum á einhverju fyrirbæri, einhverri þjóð eða fyrirtækjum er alveg hægt að missa stjórn á ríkinu og sjálfsákvörðunarréttinum á annan veg en bara í gegnum landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Ef ég stæði frammi fyrir tveimur valkostum á morgun, að ganga í ESB eða Kína, held ég að svarið væri mjög skýrt. Ég gengi frekar í ESB.

Ég vonast til þess að við fáum meiri upplýsingar (Forseti hringir.) því að mér finnst þær skorta um til dæmis samninginn við Kína og hvert við erum að stefna með Rússlandi. Svo vil ég meiri upplýsingar um ESB.