143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeir flokkar sem nú fara með stjórn landsins fóru hér mikinn í sölum þingsins á síðasta kjörtímabili og fyrir kosningarnar um mikilvægi þess að þjóðin fengi að ráða úrslitum stærri mála og mikilvægi þess að efla sáttina í samfélaginu. Og hvað gera þeir? Þeir fara fram með algera öfgatillögu um ýtrustu aðgerðir gagnvart Evrópusambandinu til þess að spilla samstarfi við þá og reyna að koma í veg fyrir að nokkrar viðræður fari fram við það næstu 10–20 árin og neita algerlega að leyfa þjóðinni að koma að því máli, jafnvel þó að annar stjórnarflokkanna, allir ráðherrar hans utan einn, hafi lofað því skýrt og fyrirvaralaust að þjóðin fengi það fyrir innan við ári síðan.