143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá mér þá er það auðvitað þannig að menn hafa séð í gegnum fingur sér með þetta í fimm og hálft ár, enda er tekið tillit til þess að slíkar aðstæður geta komið upp hjá ríkjum í hinu evrópska samstarfi og það er ósköp eðlilegt eins og hæstv ráðherra vék að.

Hitt er annað að frjálst flæði innan markaðarins er grundvallaratriði til að hann geti virkað og ríki sem hefur vikið frá því grundvallaratriði hlýtur að þurfa að hafa trúverðuga áætlun um það hvernig það ætli að komast út úr því og geta sýnt fram á að um sé að ræða tímabundið ástand.

Hvernig er þessi staða orðin hjá okkur núna? Staðan er orðin þannig hjá okkur núna að í nærri því fimm og hálft ár hefur þetta frávik og neyðarástand varað. Við sjáum ekki í fyrirsjáanlegri framtíð neina raunhæfa áætlun um að frjálsir fjármagnsflutningar verði til og frá Íslandi og að við verðum aftur hluti af fjórfrelsinu sem er grundvallaratriði á hinum evrópska sameiginlega markaði. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. utanríkisráðherra, sem ekki getur sjálfur uppfyllt grundvallaratriði í hinu evrópska markaðssamstarfi, að sækja á gagnaðilana réttindi og hagsmuni Íslands?