143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Léttúð hæstv. utanríkisráðherra um þetta efni endurspeglar það óraunsæi og þann viðvaningshátt sem allur þessi málatilbúnaður er byggður á. Þetta er ekkert allt í lagi. Gjaldeyrishöftin kosta okkur 80 milljarða. Við eigum fullt í fangi með að ráða við efnahagslega stöðu okkar, við höfum ekki getað gert það nema með því að setja lög um gjaldeyrishöft. Við erum að missa hæfileikaríkt fólk úr landinu vegna þess að við getum ekki greitt því hærri laun. Það að áfram halli á lífskjör hér í landinu og samkeppnishæfni atvinnulífsins á næstu missirum og árum getur einfaldlega skapað grafalvarlega stöðu hér. Það er engin ástæða til að fjalla um það sem eitthvað sem sé bara samkvæmt reglunum allt í lagi.